1908

Framtíðarsjóður Víkings

Víkingur hefur stofnað styrktarkerfi sem ber nafnið 1908 og vísar í stofnár félagsins. Markmið styrktarkerfisins 1908 er að búa til öflugan fjárhagslegan grunn Víkings og styrkja starfsemi og innviði félagsins til framtíðar. Styrktarkerfið á að gegna stóru hlutverki í að efla enn frekar samstöðu og samheldni Víkinga og tryggja að félagið vaxi og dafni til framtíðar.

Víkingur er eitt mesta afreksfélag landsins og hefur unnið marga Íslandsmeistaratitla í handknattleik og knattspyrnu. Víkingur er einnig hverfafélag í besta skilningi þess orðs. Margar fjölskyldur nefna barna- og unglingastarf félagsins sem helstu ástæðu þess að þær vilja búa í Víkingshverfunum. Félagið hlúir vel að æskufólki sínu. Íbúar hverfanna á aldrinum þriggja til sex ára kynnast félaginu fyrst í Íþróttaskóla barnanna og eftir það liggur leiðin í íþróttastarf á vegum deilda Víkings. Innan félagsins eru starfræktar sjö deildir og þátttakendum fer sífellt fjölgandi. Deildirnar eru almenningsdeild, borðtennisdeild, handknattleiksdeild, karatedeild, knattspyrnudeild, skíðadeild og tennisdeild. 

Þegar Víkingur var stofnaður árið 1908 mættu 32 drengir á stofnfundinn og höfðu þeir háleit markmið. Tilgangurinn með stofnun félagsins árið 1908 var ánægjan að spila fótbolta og fjármögnun á boltakaupum. Tókst drengjunum að safna nógu mörgum túeyringum og fimmeyringum þar til hafðist að mestu fyrir fyrsta boltanum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá en eitt hefur ekki breyst og það er ánægjan og samstaðan innan félagsins til að vegur þess megi vera sem mestur.

Víkingur stendur vel rekstrarlega og eignarlega. Með styrktarkerfinu 1908 verður búinn til öflugur sjóður sem mun tryggja fjárhagslegt öryggi og rekstur Víkings til frambúðar. Sjóðurinn mun m.a. úthluta styrkjum til framfaraverkefna innan félagsins. Sjóðurinn fer ekki í beinan rekstur félagsins. Skipuð verður óháð þriggja manna stjórn eldri Víkinga sem mun hafa yfirumsjón með sjóðnum.

Við vonumst til að allir Víkingar, nær og fjær, sjái hag sinn í að efla félagið enn frekar með því að taka þátt í styrktarkerfinu 1908 og greiði 1908 krónur á mánuði til sjóðsins. Með því getum við tryggt enn öflugri uppbyggingu félagsins okkar sem mun skila sér í enn í betra starfi og árangri í framtíðinni.

Skráning í 1908- Framtíðarsjóð Víkings er í gegnum eftirfarandi:


vikingur.is

https://www.facebook.com/vikingurfc/

Frekari upplýsingar veitir Haraldur Haraldsson framkvæmdastjóri Víkings í síma 519 7600. 

 

Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna