Víkingur er hverfafélag í besta skilningi þess hugtaks. Margar fjölskyldur nefna barna- og unglingastarf félagsins sem helstu ástæðu þess að þær vilja búa í Víkingshverfunum eða fluttu jafnvel þangað á sínum tíma. Víkingar eru þekktir fyrir að búa vel að æskufólki á heimaslóðum sínum. Íbúar hverfanna á aldrinum þriggja til sex ára kynnast félaginu fyrst í Íþróttaskóla barnanna og eftir það liggur leiðin í íþróttastarf á vegum deilda Víkings. Deildir Víkings eru átta talsins. Almenningsdeild, borðtennisdeild, handknattleiksdeild, hjólreiðadeild, karatedeild, knattspyrnudeild, skíðadeild og tennisdeild. Skráðir iðkendur hjá Víkingi, yngri en 16 ára, eru um 1.200 talsins.