Knattspyrna

Kári Árnason er kominn heim. Þegar þessi tíðindi spurðust út um smáíbúðahverfið og Fossvoginn hljóp gleði í andlitið hjá öllum þeim sem unna Víkingum og vilja veg þeirra sem mestan. Þvílíkur liðsauki á tímum þegar ekki veitir af styrk til að takast á við mikil átök í efstu deildinni.

Kári Árnason er ekki hver sem er, hann er einn af bestu sonum Víkings.  Þótt hann sé fæddur í Gautaborg í Svíþjóð er hann uppalinn í Víkinni og meira að segja fæddur árið 1982, en það haust urðu Víkingar einmitt Íslandsmeistarar. Þá æfðu Víkingar í Hæðargarði og með liðinu þá léku landsliðsmenn eins og Stefán Halldórsson og Ómar Torfason og Gunnar Gunnarsson sem átti síðar eftir að slá í gegn sem landsliðsmaður í handbolta.

Kári segist vart ráða sér fyrir tilhlökkun að takast á við næstu verkefni með Víkingum en hann er þessa dagana að safna kröftum eftir afar langt tímabil og heilt heimsmeistaramót þar sem hann stóð sig gríðarlega vel eins og allir samherjar hans í íslenska landsliðinu.

„Veran í Rússlandi var mögnuð lífsreynsla og þetta er auðvitað stærsta svið fótboltans,“ segir Kári. „Ég bjóst reyndar við því fyrirfram að við myndum ná lengra á mótinu, en þetta var svona stöngin út mót á meðan EM var stöngin inn. Það má líka segja að allt hafi verið uppá tíu hjá Rússunum, skipulag, vellirnir, æfingaaðstaða og allt annað.“

Kári er á því að furðu lítið hafi breyst í Víkinni frá því hann hvarf í atvinnumennsku en hann spilaði í Víkingspeysunni síðast sumarið 2004. Hann horfir íbygginn yfir Víkingsvöllinn sem er orðinn býsna grænn en menn hafa alveg sloppið við að vökva grasið þetta sumarið.   Ótæpileg rigning hefur hjálpað til ef hægt er að sjá eitthvað jákvætt við þessa endalausu úrkomu. Nú má samt hætta að rigna vatni í Víkinni en mörkunum má svo sannarlega rigna í markið hjá andstæðingunum.

„Þetta er bara nákvæmlega eins og þetta á að vera hérna í Víkinni,“ segir þessir reyndi varnarjaxl sem á að baki 69 landsleiki en í þeim hefur hann skorað 5 mörk og lagt upp fjölda marka að auki með geggjuðum kollspyrnum. Kári á án vafa eftir að vera mjög hættulegur í föstum leikatriðum með Víkingum fram á haustið og að auki verður hreint ekki einfalt að senda háa bolta inn í teig Víkinganna með hann, Sölva Geir Ottesen og Halldór Smára Sigurðsson í varnarlínunni. Flest lið í deildinni myndu gjarnan vilja eiga einn á pari við einhvern af þessum gríðarlegu öflugu köppum í þessu þétta varnarþríeyki.  

Kári er bjartsýnn fyrir átökin framundan og segir að sumarið muni enda vel hjá Víkingum og að þeir lendi vonandi í efri hluta deildarinnar. Reynsla Kára mun án efa vega þungt við að ná þeim árangri og hún mun líka vera vítamín í æðum allra sem með honum spila. Auk þess að leika með Víkingum í tveimur efstu deildunum hér heima þá hefur Kári spilað með Djurgården, AGF Aarhus, Esbjerg fB, Plymouth Argyle, Aberdeen í tvígang, Rotherham United og Malmö FF, sem er uppeldisfélag Zlatan Ibrahimović. Þessu til viðbótar spilaði Kári á yngri árum með svokökkuðum Bulldogs frá Gonzaga-háskóla í Washington í Bandaríkjunum og einnig með liði Adelphi-háskóla í BNA.

Þegar Kári horfir til baka sér hann strax fjölda minnistæðra augnablika frá ferlinum.

„Sigrar á móti stórþjóðum með landsliðinu er það minnistæðasta frá ferlinum,“ segir Kári. Hér er einfalt að nefna þjóðir eins og Holland, Tyrkland, England og Króatíu sem allar töpuðu fyrir Íslandi.

„Í félagsliðafótboltanum stendur sennilega upp úr sænski meistaratitillinn með Malmö FF og að spila í riðlakeppni meistaradeildarinnar á móti stórliðum á borð við Real Madrid og PSG. Það var líka mjög skemmtilegt að ná að komast upp um deild tvö ár í röð með Rotherham Utd. Það er eitthvað sem þeir sem spilað hafa í neðri deildum Englands vita mæta vel að er hreint ekki auðvelt.“

Þótt Kári hafi spilað fótbolta frá því hann man eftir sér og verði 36 ára í haust, sem er fremur hár aldur fyrir fótboltamann, er hann fullur af krafti og þreki til að berjast. „Það er sennilega einfaldleikinn, boltinn sjálfur, tvö mörk og líka hitt að það er bannað að taka boltann með höndunum,“ segir Kári aðspurður um það sem geri knattspyrnuna að vinsælasta sporti á jörðinni.  

„Á meðan aðrar íþróttir eru með flókin regluverk, sem dómarar eiga oft erfitt með að fylgja og eiga jafnvel til að eyðileggja leikinn, þá er knattspyrnan einföld í eðli sínu.“

Yngri flokkar Víkings hjá stelpum og strákum hafa spilað fyrna vel á síðustu árum og þessir krakkar sækja yfirleitt heimaleiki Víkings. Þeim á bara eftir fjölga í stúkunni með komu Kára í Víkina. Kári er með ráð handa þessum krökkum til að ná langt í þessari frábæru íþrótt.  

„Mér var kennt á unga aldri að ef maður ætlaði að gera eitthvað þá ætti maður að gera það almennilega og vanda sig við það. Það eru sennilega bestu ráð sem ég hef fengið og eiga vel við. Maður verður að vera tilbúinn að fórna ýmsu, leggja hart að sér og vanda sig við það sem maður er að gera.“

TVG ZIMSEN logo prufa2ERREA
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna