Knattspyrna

Arnar Gunnlaugsson er þjálfari Víkings í meistaraflokki karla í knattspyrnu. Hartnær allir sem hafa eitthvað fylgst með fótbolta undanfarna áratugi vita mætavel hver þessi maður er.En fyrir hina sem eru eitt spurningarmerki er sjálfsagt að geta þess að Arnar er sementsvíkingur og Skagamaður. Hann kemur úr gullaldarliði ÍA sem vann Íslandsmeistaratitilinn fimm ár í röð frá 1992 til 1996. Arnar er líka bisnissmaður og nýbakaður faðir og þegar við heyrum í honum heldur hann á fjögurra mánaða gamalli prinsessu. „Fyrir utan Víking á hún allan minn tíma,“ segir Arnar og brosir breitt. 

Arnar er sjálfur fæddur 3. mars árið 1973 og það hagar þannig til að nákvæmlega sama dag kom bróðir hans í heiminn, Bjarki Gunnlaugsson, en þeir tveir hófu tuðruspark nánast frá þeirri stundu er þeir hófu að hreyfa útlimina. Þeir urðu enda báðir ævintýralega góðir í fótbolta.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mikil reynsla úr knattspyrnu í fremstu röð

„Það leggst mjög vel í mig að taka við Víkingum, ég er gríðarlega spenntur enda í fyrsta skipti sem ég ber einn ábyrgð á liði,“ segir Arnar, „en ég er vel undirbúinn og er þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri.“

Arnar hefur reyndar fengið ótrúlega mörg tækifæri á sínum langa knattspyrnuferli enda myndu sumir vilja skilgreina hann og Bjarka bróður hans sem undrabörn í þessari vinsælu íþrótt. Þeir vöktu athygli barnungir fyrir leikni og skilning á fótbolta sem var langt umfram alla jafnaldra þeirra. Þessi gjöf frá forsjóninni varð til þess að Arnar hóf atvinnumennsku mjög ungur en hann spilaði með liðum eins og Feyenoord, Nurnberg, Sochaux, Bolton, Stoke, Dundee og Leicester.  Hér heima lék Arnar með ÍA, KR, Val, Fram og Haukum.

Arnar var á sinni tíð einhver skæðasti framherji sem sögur fara af en hann afrekaði það í Íslandsmeistaraliði Skagamanna árið 1995 að skora 15 mörk í þeim sjö leikjum sem hann spilaði í efstu deild það sumarið. Hann lék í heildina 332 leiki í meistaraflokki og skoraði í þeim 119 mörk sem hefðu orðið miklu fleiri ef Arnar hefði ekki átt við þrálát meiðsl að stríða á köflum. „Það er auðvitað erfitt að horfa á félaga sína spila og vera meiddur en fyrst og síðast er það gleðilegt þegar maður lítur til baka að hafa fengið að spila í deild þeirra bestu -  í ensku úrvalsdeildinni.“

Arnar kemur því með gríðarlega reynslu sem leikmaður inn í nýja starfið en hann hefur líka verið í fremstu röð í þjálfun hér heima sem aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar hjá KR og svo sem aðstoðarþjálfari Loga Ólafssonar hér í Víkinni.

 

Nýjar áherslur – breytt þjálfun

Víkingar hafa góða reynslu af Skagamönnum í stöðu þjálfara. Sigurður Jónsson knattspyrnusnillingur þjálfaði liðið með góðum árangri og sömu sögu er að segja af Ólafi Þórðarsyni sem einnig vann frábært starf í Víkinni. Það er því með bjartsýni sem flestir Víkingar líta til Arnars Gunnlaugssonar. Þegar hann horfir til sumarsins, sem er í fjarskanum í augnablikinu, telur hann að byggt verði á þeim leikmönnum sem stóðu sig vel í fyrra ásamt því að vinna með þá ungu og efnilegu leikmenn sem félagið kemur með úr æskustarfinu.

„Í fullkomnum heimi þá væri þetta ungt lið en með reynslubolta í mikilvægum stöðum sem bæði hjálpa þeim yngri að þroskast hraðar ásamt því að ná árangri sem stuðningsmenn okkar þyrstir í,“ segir Arnar íbygginn.

„Það eru nokkrir mjög spennandi leikmenn að koma upp, sumir fengu fleiri mínútur en aðrir á síðasta tímabili og núna munum við hjálpa þeim að stíga skrefinu lengra. Allir ungir leikmenn eru óstöðugir í leik sínum og það er normal. Þeir fá að spila mikið í vetur, fá nýtt fitness prógram og vonandi munu fótboltaæfingar vetrarins skila sér í því að með vorinu verða nokkrir uppaldir leikmenn að gera alvarlegt tilkall til sætis í byrjunarliðinu.“

Með nýjum mönnum koma nýjar áherslur en Víkingur hefur munstrað Guðjón Örn í Toppþjálfun í áhöfnina en Arnar segir að hann sé sá fremsti í sínu fagi á Íslandi og þótt víðar væri leitað. „Víkingur hefur núna gullið tækifæri að taka stórt skref fram á við sem sjaldan eða aldrei hefur verið tekið í íslenskum fótbolta. Markmið mitt er að þjálfa liðið með þeim hætti að það ráði við það tempó sem ég krefst af hverjum og einum núna og í framtíðinni. Við lítum svo á að fyrir áramót sé verið að byggja upp og að leikmenn venjist æfingaálaginu og kerfinu sem við viljum spila.  Eftir áramót er ætlunin að líta á þetta sem tímabil frekar en undirbúningstímabil að því leyti að það eru margir leikir spilaðir frá janúarbyrjun og því er mikil áhersla lögð á að menn séu klárir í knattspyrnuálag strax í janúar eða febrúar í stað þess að menn séu þungir fram í maí og júní og þá sé verið að létta á sér. Leikmenn fá einstaklingsprógram miðað við leikstöður,“ segir Arnar,  „bakvörður fær þannig öðruvísi hlaupaprógram en sóknarmaður. Mælingar verða reglulega til að hjálpa okkur að sjá ástand og framfarir leikmanna. Í stuttu máli munum við vinna í fótbolta, fitness og fókus til að ná árangri… effinn þrjú,“ segir Arnar og brosir.

Framfarir í íslenskri knattspyrnu

Miklar framfarir hafa orðið í íslenskri knattspyrnu frá því að Arnar var á fullri ferð en mun  færri íslenskir leikmenn náðu þá langt alþjóðlega en nú tíðkast. „Ég myndi nú samt vilja að fleiri af okkar efnilegustu leikmönnum spiluðu hér í eitt eða tvö tímabil í stað þess að fara svona snemma út,“ segir Arnar. 

Hann er engu að síður á því að íslensk knattspyrna sé á réttri leið. „Það eru fjölmargir ungir og spennandi leikmenn að skjótast fram í sviðssljósið og þjálfun frá ungra aldri er frábær og fyrirmynd fyrir aðrar þjóðir enda er aðstaðan hér mjög góð og allt önnur en þegar ég var að alast upp. Stefna íslenskra liða þarf líka að vera sú að tefla þessum ungu leikmönnum fram og sætta sig við að úrslitin verði þá kannski ekki alltaf þau sömu og þegar reynslumeiri leikmenn spila. Þetta er erfið ákvörðun hjá þjálfara þegar við erum í keppni þar sem árangur skiptir svo miklu en mín skoðun er sú að horfa þurfi í heildarhagsmuni.“

Arnar hefur ýmis ráð um hvert eigi að stefna og vill að þjálfun sé meira einstaklingsmiðuð en nú er og þá séu stöður leikmanna hafðar í huga. Miðvörður þurfi t.d. ekki sömu þjálfun og kantmaður.

„Íslendingar verða aldrei jafn góðir og Spánverjar í að halda og leika knettinum en við getum verið betri en þeir í svo mörgum öðrum þáttum leiksins, t.d. varnarleik, föstum leikatriðum, fitness og í liðsheild,“ segir Arnar. „Við þurfum líka meira fé í mælingar til þess að æfingar verði markvissari og skili sér í færri meiðslum. Sex mánaða undirbúningstimabil er vissulega draumur fyrir hvaða þjálfara sem er en þrátt fyrir góðan vilja þá eru peningar af skornum skammti til þess að þjálfunin verði á pari við bestu klúbba heims.“

Spilaði á móti þeim bestu

Arnar hefur spilaði gegn mörgum af bestu fótboltamönnum sögunnar eins og Frakkanum Zinedine Zidane, sem var langbesti fótboltamaður sinnar kynslóðar, undrasnillingunum Ronaldo og Romario frá Brasilíu, Dananum Michael Laudrup, Frökkunum Thierry Henry og Patrick Viera og Englendingnum Steve Gerrard. Hér eru bara fáir taldir enda spilaði Arnar í ensku úrvalsdeildinni og á að baki 32 landsleiki. Hann hefur því upplifað margt magnað.

„Ég fæ alltaf fiðring eða hroll þegar ég sé vítakeppni,“ segir Arnar og rifjar upp tvær slíkar þegar hann spilaði með Leicester í ensku úrvalsdeildinni. „Þær voru reyndar báðar í enska bikarnum, elstu fótboltakeppni í heimi, á móti Arsenal annars vegar og Leeds hins vegar. Mér fannst líða heil eilífð frá því ég gekk frá miðjunni að vítapunktinum og horfðist í augu við þá David Seaman og Nigel Martyn. Sem betur fer skoraði ég í bæði skiptin.“

Arnar segir að það sé nú þannig í lífinu að menn átti sig ekki alltaf á því sem standi uppúr og vanmeti jafnvel augnablikin þegar þau eru upplifuð. „Maður kann betur að meta árangurinn eftir á, í návígi við hann áttar maður sig oft ekki á því hvað hefur áorkast. Ég horfi t.d. núna til baka og minnist landsleikja á móti Frakklandi og Brasilíu sem er sko ekki sjálfgefið að spila. Ég var líka svo heppinn að spila við hlið margra snillinga og að keppa við marga af bestu leikmönnum heims, og núna áttar mig sig á því að maður var bara þokkalegur þegar heilsan var í lagi og formið í toppi.“

Arnar Gunnlaugs í leik með Bolton

Aðstaðan og unga fólkið

Víkingar vilja ólmir komast á gervigras en það er eitthvað málum blandið hvenær völlurinn verður endurnýjaður. Arnar segir að óvissuþættir með vallarmálin hafi engin áhrif á stefnu og strauma með liðið. „Völlurinn verður tilbúinn þegar hann verður tilbúinn. Við hlökkum vissulega til að fá gervigrasið, en þangað til þá verður þetta bara business as usual,“ segir Arnar sem sjálfur æfði fótbolta í fjörunni á Langasandi á sínum yngri árum. Andinn var talsvert annar þá, engar tölvur, engir farsímar og önnur músík. Íslendingar hlustuðu á Stuðmenn, ðe Lónlí blú bojs, Spilverkið og Brimkló. Margir hlustuðu líka á ensku sveitina Queen sem nú fer mikinn á nýjan leik en á áttunda áratugnum slepptu Íslendingar sjónvarpinu á fimmtudagskvöldum og hlustuðu á útvarpsleikritið… og fólk fór á völlinn, meira að segja á Melavöllinn.

Nú hlusta ungir knattspyrnuiðkendur – strákar og stelpur – á rapp og eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum og hafa snjallsímann aldrei langt undan.  Til að ná árangri í fótbolta þarf enga nýja uppskrift – fólk verður bara að gleyma öllu þessu í smástund á meðan fókusinn er á fótboltann.

„Unga fólkið okkar þarf að æfa , æfa og aftur æfa,“ segir Arnar. „Það þarf líka að horfa á fótbolta til að læra, leikurinn er að verða hraðari og hraðari og tæknin er að aukast og skipulagið í leiknum sömuleiðis. Leikmenn þurfa að vera mjög fit og taktísk sterkir til að ná langt. Vinnusemi þarf að vera í fókus og ákveðinn agi til staðar. Það eru svo mörg vopn núna til staðar sem hægt er að nýta sér og þekkingin svo víða sem ungt fólk getur aflað sér.  Það er því mikil synd ef hæfileikar eru til staðar í fótbolta en einstaklingurinn nær ekki langt af því að grunnþáttunum var ekki sinnt.“ 

TVG ZIMSEN logo prufa22019 Macron Logo NEG 1ERREA
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna