Knattspyrna

Erfiðast fyrir okkur í vörninni að aðlagast nýju leikskipulagi

  • Segir Halldór Smári sem náði því afreki að spila 300 leiki fyrir Víkinga í sumar

Lögfræðingurinn og varnarjaxlinn Halldór Smári Sigurðsson hefur spilað á fjórða hundrað leiki fyrir Víking og er þar með kominn í fámennan hóp úrvalsmanna sem hafa haft mikil áhrif á sögu félagsins. Þeir fáu sem koma honum ekki strax fyrir sig, ættu að kannast við turninn í vörninni sem þolir ekki að tapa einu einasta skallaeinvígi, hvað þá að tapa leikjum.

Halldór Smára vantar bara sex sentímetra upp á að ná tveimur metrum sléttum á hæð, hann er fæddur árið 1988 og hefur lokið embættisprófi í lögum. Hann er metnaðarfullur og kraftmikill og svakalega frekur í loftinu. Þótt allir Víkingar vilji að liðið vinni fleiri leiki þá verður Halldór Smári ekki skammaður fyrir skort á einbeitingu eða sigurvilja. Hann er enda með þokkalegt vinningshlutfall frá öllum ferlinum í meistaraflokki, rösk fjörutíu prósent og jafnteflin eru 55 eða réttur fjórðungur. Halldór Smári mætti líklega vera duglegri að skora, ekki síst sökum flughæfileika í teig andstæðinganna í föstum leikatriðum, en hann er þeim mun öflugri að halda boltanum frá okkar marki. Halldór Smári hefur skorað þrjú mörk fyrir Víking í alvöru keppni en þannig hagar til að þau hafa öll komið í bikarnum. Hann á því enn eftir að skora í sumar en það fer án vafa að bresta á með einu eða jafnvel tveimur.

Ekkert staldrað við óheppnina

„Þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahóp og þá staðreynd að helmingurinn af byrjunarliðinu á að vera kominn heim fyrir klukkan 21 á kvöldin þá eru tíu stig í níu leikjum undir væntingum.  Ég held að það sé alveg ljóst enda setjum við meiri kröfur á okkur en það,“ segir Halldór Smári spurður út í hvers vegna Víkingar hafi ekki náð betri árangri úr fyrstu níu leikjum sumarsins. Hann er kaldhæðinn og hnyttinn og vísar þarna auðvitað til þess að margir leikmanna Víkings séu barnungir og nýbyrjaðir í raun sumir hverjir að reima á sig fótboltaskó í karlmannsstærð.

„Að því sögðu þá höfum við verið óheppnir að fá ekki meira út úr nokkrum leikjum og þá sérstaklega leikjunum við Val á Hlíðarenda og ÍBV í Vestmannaeyjum. Eftir tvo sigurleiki í röð er hins vegar komið meira sjálfstraust í hópinn og við hlökkum til næstu leikja.“

Halldór Smári segir að það hafi vissulega veitt mönnum þung högg þegar andstæðingarnir jöfnuðu alveg í blálokin eins og á Hlíðarenda og í Eyjum.  „Og ég viðurkenni það alveg að maður vissi ekki hvernig svona ungt lið myndi taka svona áföllum. Það var því frábært að við stöldruðum ekki í eina sekúndu við þessa leiki og höfum bara haldið áfram ótrauðir og hvergi vikið frá þeirri stefnu sem Arnar Gunnlaugs tók með liðið.“

Halli

Kúvending í leikstíl frá síðustu árum

Talandi um leikstílinn, þá hafa margir glaðst yfir fegurðinni sem Skagamaðurinn Arnar Gunnlaugsson hefur innleitt í Víkinni – hárri pressu, áræðninni og því að halda boltanum með þrifalegu spili. Sumir hafa hins vegar gefið lítið fyrir leikstílinn þegar stigin hafa farið til andstæðinganna. Halldór Smári hefur sökum reynslunnar spilað eftir allskyns skipulagi, t.d. þar sem menn vilja mest verjast og sækja hratt þegar boltinn vinnst og detta svo strax aftur í skotgrafirnar.

„Ætli það hafi ekki verið erfiðast fyrir okkur í varnarlínunni að aðlagast nýju leikskipulagi enda erum við hátt uppi á vellinum og það þarf ekki mikið að gerast til þess að við séum nokkuð berskjaldaðir og þá með mikið pláss fyrir aftan okkur,“ segir Halldór Smári um „tiki-taka stílinn“ hjá Arnari Gunnlaugs.  

„Þetta er auðvitað algjör kúvending frá a.m.k. seinustu tveimur árum þar sem við höfðum lagt upp úr því að vera þéttir og liggja aftur en það er vitað mál að okkur Sölva Geir líður vel þannig. Mér finnst við engu að síður hafa leist þetta ágætlega þrátt fyrir að hafa fengið full mikið af mörkum á okkur en verkefnið er klárlega að loka betur fyrir Víkingsmarkið.“

Mikill léttir að sigra

Mörgum Víkingum var mjög létt þegar sigur vannst loksins á nýja „túninu“ í Víkinni þegar HK kom í heimsókn og spilaði vígsluleik á spánýju gervigrasi. Til viðbótar þessu vannst svo strax næsti leikur gegn KA fyrir norðan sem er mikið afrek því þangað sækja ekki mörg lið sigur.

„Að mínu mati hefur engin breyting orðið þrátt fyrir þessa sigra,“ segir Halldór Smári. „Við höfum hvorki breytt leikkerfinu né gert hlutina öðruvísi en við vorum að gera fyrir þessa tvo sigurleiki. Kannski hefur þessi óheppni sem elti okkur í fyrstu leikjunum bara snúist aðeins við.  Það er bara þannig að því meira sem maður æfir því heppnari verður maður. Markmiðið er að sjálfsögðu að halda áfram á sömu nótum.“

Mjög góður andi – og allir sáttir að lokum

Halldór Smári segir mjög góðan anda í klefanum hjá Víkingum enda sé þar gríðarlega góð blanda af ólíkum mönnum á öllum aldri sem hafi býsna fjölbreyttan karakter.  „Það hefur verið þannig allt tímabilið,“ segir hann, „og  ég sé fyrir mér að Víkingur endi á góðum stað í deildinni sem allir verða sáttir við þegar litið verður yfir sumarið.“

Þegar Halldór er beðinn um að rifja upp atvik frá ferlinum verður hann aðeins hugsi en nefnir svo það afrek að ná Evrópusæti og spila Evrópuleik með Víkingi. „Það var auðvitað geggjað en það var líka ótrúlega skemmtilegt að vinna 1. deildina bæði 2010 og 2013. Svo er ég sáttur með þá góðu vini sem ég hef eignast í gegnum árin.“

Halldór Smári hefur verið í Víkinni allan sinn feril – hann spilaði reyndar í smástund með Berserkjum, sem er systurklúbbur okkar Víkinga, eða í raun sproti af stórkostlegum meiði Víkings. Hann hefur varið þúsundum klukkutíma í fótbolta og þess utan unnið sem lögfræðingur „þar sem ég nota einungis vinstra heilahvelið frá átta til fjögur á daginn,“ segir Halldór Smári og hlær.

„Þess vegna eru öll áhugamálin tengd hægra heilahvelinu en ég hef mikinn áhuga á nánast allri hönnun hvort sem það er arkitektúr, grafík, vöruhönnun eða annað. Þá hef ég einnig mikinn áhuga á tónlist og tísku og þá helst strigaskóm.“

Þá vitum við það.

TVG ZIMSEN logo prufa22019 Macron Logo NEG 1
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna