Knattspyrna

Skemmtilegasta deild í háa herrans tíð

  • Segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings

„Hvernig er boltinn núna í sumar? Frábær! Skemmtilegasta deild í háa herrans tíð. Síðan eru líka allskonar miðlar sem fjalla grimmt um deildina og fjöldi leikmanna líka sem síðan vekur enn meiri áhuga og athygli á leiknum fallega.“

Þetta segir Arnar Gunnlaugsson sementsvíkingur og Skagamaður og þjálfari úrvalsdeildarliðs Víkings í knattspyrnu karla. Þeir sem hafa eitthvað fylgst með liðinu í sumar, eða lesið glefsur um leiki þessi í miðlunum sem Arnar talar um, hafa ekki komist hjá því að sjá að liðið er að gera eitthvað alveg nýtt, eitthvað allt annað en menn hafa séð í Víkinni í áraraðir.

„Áherslur eru hátt tempó, með og án bolta,“ segir Arnar. „Við viljum nýta stærð vallarins, gera völlinn stóran með boltanum og færa hann hratt á milli leikmanna án þess þó að vera bara í hliðarsendingum,“ segir Arnar. „Þær eru bara til þess að finna glufur á milli varnarlína hjá andstæðingunum og aftan við öftustu varnarlínuna þeirra.“

Arnar segir að það hafi tekið tíma að innleiða breytingarnar, „en með hverri æfingunni og hverjum leik þá eykst skilningurinn. Við leggjum áherslu á að vinna boltann aftur hratt og að pressa sem lið en ekki sem einstaklingar. Ég hef lagt áherslu á að fá fram skilning allra leikmanna á því hvers vegna við viljum spila svona og ástæðan er einföld. Að halda boltanum sem mest, eða spila það sem kallað er „direct possession,“ er langlíf aðferð sem skilar sér á endanum andstætt því að spila tilviljunarkenndan fótbolta þar sem lið treysta eingöngu á fáein atriði innan leiksins sjálfs sem stundum ganga upp en oftast ekki.“

Þótt Arnar hafi ekki mikla reynslu sem þjálfari hefur hann engu að síður þegar flaggað við hún í þessu starfi og náð að móta lið sem er á öðrum nótum en öll hin liðin í deildinni. Sumir eru afar kátir með þetta, fegurðin er í framkrókum þótt stigin vanti kannski, á meðan aðrir heimta bara stig, alveg sama hvernig þau koma.

„Stigasöfnun ætti að vera meiri en hvernig leikmennirnir hafa tekið nýjum og note bene erfiðum leikstíl er til fyrirmyndar. Það þarf hugrekki til þess að spila okkar leikstíl. Þetta tekur á andlega og auðvitað líkamlega sömuleiðis. Leikmenn þurfa að halda algjörum fókus, sem er vanalega vandamál hjá ungum leikmönnum, en við gerum kröfur um að leikmenn okkar þroskist hratt.“

Gríðarleg reynsla sem leikmaður

Þótt Arnar sé kannski ekki mesti reynsluboltinn í þjálfarateymi deildarinnar þá er hann með meiri reynslu af því að spila fótbolta en allir í þessari sömu deild.  Hann hóf atvinnumennsku mjög ungur og spilaði með liðum eins og Feyenoord, Nurnberg, Sochaux, Bolton, Stoke, Dundee og Leicester.  Það eru ekki margir sem geta státað af slíku hvar sem leitað er meðal þjóða. Hér heima lék Arnar meðal annars með ÍA, KR, Val og Fram sem allt eru fornfræg stórveldi í þessari íþrótt.

Það hefur verið gagnrýnt að Víkingar hafi náð forystu í mörgum leikjum, gegn jafnvel stærstu liðunum í deildinni, og haldið henni alveg þangað til í blálokin og misst hana þá niður nánast þegar síðasta flautið gellur. „Menn verða að halda fókus, það er lykillinn,“ segir Arnar spurður um þetta atriði, en gera má ráð fyrir að ungir og óharðnaðir leikmenn verði fyrir höggum á því að fá jöfnunarmörkin í andlitið örskömmu áður en þeir ætla í sturtuna.

Arnar

Getum unnið öll liðin í deildinni

Stundum er sagt að sóknarmenn verði aldrei jafngóðir þjálfarar og miðjumenn eða varnarjaxlar. Engar rannsóknir styðja þetta, og Skagamaðurinn blæs á svona bull, enda væri ekkert vit í að ein mesta markamaskína íslensks fóltbolta léti svona stýra sér í þjálfarastarfinu.  Arnar lék í heildina 332 leiki í meistaraflokki og skoraði í þeim 119 mörk. Hann hefur mætt mörgum af bestu fótboltamönnum sögunnar eins og Frakkanum Zinedine Zidane, sem var langbesti fótboltamaður sinnar kynslóðar, undrasnillingunum Ronaldo og Romario frá Brasilíu, Dananum Michael Laudrup, Frökkunum Thierry Henry og Patrick Viera og Englendingnum Steve Gerrard. Arnar tekur því með sér magnað veganesti frá ferlinum í sitt starf en hann á auk þess að baki 32 landsleiki.

„Menn sjá að fótboltalega þá getum við Víkingar unnið öll lið og það með sannfærandi hætti, því við stjórnum leikjunum andstætt því að pakka í vörn og vinna á föstum leikatriðum. En við verðum að halda fókus og halda út heila leiki. Menn þurfa alltaf að gera ráð fyrir að það versta geti gerst á vellinum ef staðsetningin er ekki í lagi. Að staðsetja sig og bregðast rétt við í hverju tilviki lærist eingöngu með þroska leikmanns og hversu meðtækilegur hann er fyrir breytingum. Mér finnst við vera í fínum málum hvað þetta varðar. Leikmenn mega gera „réttu“ mistökin svo framanlega sem þeir geta dregið lærdóm af slíkum mistökum,“ segir Arnar.

Víkingsliðið er að þéttast

Arnar er á því að Víkingar hafi smám saman orðið þéttari sem lið eftir því sem liðið hefur á mótið og tveir sigrar í röð segi talsvert mikið um það.

„Að skora mörk er ekki vandamálið en höfum verið að fá á okkur of mörg „soft“ mörk sem skrifast á einstaklingsmistök frekar en að við höfum verið yfirspilaðir. Við verðum einfaldlega að bæta okkur verulega í þeim efnum án þess þó að missa okkar gildi. Með öðrum orðum, við megum ekki falla í skotgryfjur af hræðslu við að fá á okkur mark.“

Arnar er gríðarlega ánægður með andann í Víkinni og er glaður í þessu starfi. „Menn eru samstíga, ekki bara leikmenn heldur stjórnarmenn og allir sem koma að klúbbnum. Ég tel að stuðningsmenn skynji að það er eitthvað jákvætt að gerast og þess vegna eru þeir tilbúnir að fyrirgefa mistök vegna þess að þeim líkar við okkar leikstíl, stuðningsmönnum liðsins líkar við að ungir leikmenn fái tækifæri og að eldri leikmenn fórni sér af lífi og sál fyrir klúbbinn.“

TVG ZIMSEN logo prufa22019 Macron Logo NEG 1
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna