Knattspyrna

Markmiðið að bæta liðið

- Segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari meistaraflokks karla

Víkingur hafði spilað tvo leiki á Íslandsmótinu í fótbolta þegar þjálfari liðsins, Arnar Gunnlaugsson, var spurður út í hvar léttleikinn, fjörið og framsæknin væru? Tvö jafntefli og eitt mark var allt og sumt úr þessum tveimur viðureignum. Liðið svaraði fyrir sig í þriðja leiknum, mánudaginn 29. júní, þegar það sýndi sitt rétta andlit og sigraði sterkt lið FH-inga 4-1 í Víkinni. Og Arnar reyndist réttspár þegar hann sagði: „Þetta verður í góðu lagi. Það tekur tvo til þrjá leiki að finna taktinn aftur eftir COVID. Sum lið þurfa færri leiki, önnur fleiri til að ná áttum. Það er bara eðlilegt. En eitt er öruggt. Allir eru ánægðir og spenntir að mótið sé byrjað.“ „Þetta verður í góðu lagi,“ segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings, þegar hann er inntur eftir svari við þessu. „Það tekur tvo til þrjá leiki að finna taktinn aftur eftir COVID. Sum lið þurfa færri leiki, önnur fleiri til að ná áttum. Það er bara eðlilegt. En eitt er öruggt. Allir eru ánægðir og spenntir að mótið sé byrjað.“

Þegar horft er á liðið núna er ljóst að það eru nokkrir ryðblettir sem þarf að slípa af og það má vel splæsa smá smurolíu á vélina. Reyndar var liðið ekki að allra skapi heldur snemma sumars í fyrra þegar það hóf að spila hvern leikinn á fætur öðrum án þess að ná bestu úrslitum. Það heyrðist þá úr barka sérfræðinga í setti í sjónvarpi að Víkingar væru beinlínis að plata sjálfa sig og í raun að spila sig niður um deild því ekkert kæmi af stigum úr því að spila „svona knattspyrnu“ og menn ættu að horfa frekar til liða sem leggja allt í aflið sem hefðu svo sannarlega uppskriftina að árangri. Við getum sagt að það sé alþekkt leið hér og víða í veröldinni reyndar, að liðið sem er kannski ekki jafnhátt skrifað og andstæðingurinn, það þurfi að þekkja sín takmörk og sinn styrk og vinna með það. Þá er auðveldast að liggja í skotgröfum og stökkva upp úr þeim þegar boltinn vinnst og hlaupa hratt og spyrna langt.

Það er vissulega mjög erfitt að vinna þannig – en það getur samt tekist með nokkrum vel útfærðum sprettum og fáeinum föstum leikatriðum og háskammtaseiglu og dugnaði,  enda er þetta gamalreynd aðferð og við höfum horft á þetta í íslenskri knattspyrnu í sjötíu ár. Víkingur hefur oft spilað svona.

En þeir sem fóru á völlinn í fyrra sáu að Arnar innleiddi eitthvað alveg nýtt í Fossvoginum. Hápressa var málið, andstæðingar voru króaðir samstundis af með boltann, boltinn unninn strax, varist var á öllu liðinu – sótt með nærri öllu liðinu – spilað frá manni til manns og andstæðingar tældir út stöðum út og suður til að skapa pláss fyrir sóknarstungur, hraði, snerpa – eiginlega bara fegurð á köflum í háskerpu. Það var verulega ánægjulegt fyrir stuðningsmenn Víkings að sjá liðið spila frá markmanni út úr massífri pressu. Sjónvarpssérfræðingarnir kölluðu þetta líka íslenskt tiki-taka. Við tökum bara undir það.

Fáir sáu bjarta tíma í Víkinni í fyrra

Afar margir spáðu Víkingum falli í fyrra, enda hafði liðið þá nánast nýfermda drengi í flestum stöðum og nokkra ellismelli með. En samt var það að spila besta boltann í deildinni og með því að hvika hvergi frá settri fílósófíu fengu Víkingar að horfa upp á sögulega stund í íslenskri knattspyrnu síðastliðið haust þegar liðið varð bikarmeistari. Sá sem hefði spáð því opinberlega í fyrravor hefði verið settur tafarlaust á lyf.

En verður ekki flókið að fylgja þessu eftir?

„Það fer eftir ýmsu,“ segir Arnar sem veit hvað hann syngur. Þótt hann sé kannski ekki með mesta reynslu allra í þjálfarateymi deildarinnar þá er hann með meiri reynslu af því að spila fótbolta en allir í þessari sömu deild.  Hann hóf atvinnumennsku mjög ungur og spilaði með liðum eins og Feyenoord, Nurnberg, Sochaux, Bolton, Stoke, Dundee og Leicester takk fyrir.  Það eru ekki margir sem geta státað af slíku hvar sem leitað er meðal þjóða. Hér heima lék Arnar meðal annars með ÍA, KR, Val og Fram sem allt eru fornfræg stórveldi í þessari íþrótt.

„Það verður reyndar flókið að fylgja þessu eftir,“ heldur Arnar áfram, „ef leikmenn, félagið og stuðningsmenn eru saddir og sætta sig við að bíða önnur 40 ár eftir næsta titli. Þetta verður einfalt ef sömu aðilar eru hungraðir í meira og horfa á það þannig að sigurinn í fyrra sé stökkpallur til að gera enn betur á þessu ári og halda þeirri jákvæðri þróun áfram sem verið hefur síðustu tólf til átján mánuði hjá þessu félagi. Ég upplifi sterkt að seinna svarið eigi meira við.“

Markmiðið að vera í toppbaráttunni

Margir urðu til þess að þakka Arnari fyrir dirfskuna í fyrra og hvika aldrei frá settum leikstíl – að innleiða nýja tíma í Víkinni og jafnvel í íslenskri knattspyrnu. „Markmiðið er að bæta liðið frá síðasta ári, vera með í toppbaráttunni til enda, verja bikarinn og vera okkur og íslenskri knattspyrnu til sóma í Evrópukeppninni,“ segir Arnar sem er á því að boltinn í sumar verði almenn mjög góður þrátt fyrir COVID. Hann segir að menn hafi tekið COVID með miklu æðruleysi þegar nærri var slökkt á samfélaginu og hver og einn hafi unnið sína vinnu afar vel á eigin forsendum. „Það var auðvitað mikið hlaupið en allir eru fegnir að byrjað sé að sparka í bolta að nýju. Eftirvæntingin fyrir komandi sumri er gríðarleg.“

Arnar segir að í ár séu mörg góð lið í efst deild, margir góðir leikmenn, ungir sem gamlir. „Hér er góð blanda af reynslumiklum þjálfurum og nýjum með áhugaverðar hugmyndir. Umfjöllun og almennur áhugi er auk þess orðinn mikill og maður býst bara við skemmtilegu sumri.“

 

Grant Volterenforte2019 Macron Logo NEG 1
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna