Skíði

 

Í viðtali við blaðamann mbl.is segir:

„Ég stefni á Ólympíuleika fatlaðra árið 2018," segir Hilmar Snær Örvarsson, þrettán ára skíðakappi úr Garðabænum. Hilmar skíðar á öðrum fæti eftir að hluti hins fótarins var fjarlægður eftir að Hilmar fékk beinkrabbamein aðeins átta ára gamall. Nýlega fór hann í fyrsta skipti í æfingarferð með fötluðu skíðafólki og leist erlendum þjálfurum mjög vel á þann árangur sem Hilmar hefur náð.

Hilmar Snær var aðeins átta ára gamall þegar hann greindist með beinkrabbamein. Strax varð ljóst að hann þyrfti að ganga í gegnum erfiða lyfjameðferð og að það þyrfti að skera burt meinið. Aðeins þremur mánuðum eftir að krabbameinsmeðferð Hilmars lauk ákvað fjölskylda Hilmars að halda í hefðina og fara í árlega skíðaferð til Akureyrar.

Við undirbúning ferðarinnar komust foreldrar Hilmars að því að það átti að vera skíðanámskeið á vegum Íþróttafélags fatlaðra á sama tíma og þau ætluðu að vera fyrir norðan. Vel var tekið á móti Hilmari í brekkunum, var honum skellt á eitt skíði og fékk hann sérstaka stafi frá Skíðasambandi fatlaðra.

Ánægður með að vera kominn í fjallið

Gengu æfingarnar mun betur en foreldrar Hilmars, Hrönn Harðardóttir og Jón Örvar Kristinsson, höfðu þorað að vona og eftir vikuna fengu þau símtal frá foreldra annars einfætts barns.

Hilmar Snær Örvarsson ásamt þjálfara sínum Lofti Gísla Jóhannssyni. Úr einkasafni.
Vildi hún vita hvort Hilmar vildi ekki taka þátt í flokki fyrir fatlaða á Andrésar Andar leikunum.
Var Hilmari boðið á skíðaæfingar hjá skíðadeild Víkings og bera foreldrar Hilmars þjálfurunum og félaginu góða söguna. Eftir þetta hefur Hilmar haldið áfram að þeysast um brekkurnar og líkar honum það afar vel.

Skíðaæfingar þessa vetrar eru þegar hafnar og er Hilmar ánægður með að vera komin í fjallið eftir sumarið. Hann segir hópinn alltaf fara í Bláfjöll þegar þau eru opin. Aðspurður segist hann þó ekki aðeins æfa skíði, heldur leggur hann einnig stund á golf og körfubolta. Hilmar segir að foreldrar sínir hafi hvatt sig til að æfa íþróttirnar og virðast hann hafa gagn og gaman af þeim.

Aldurinn mesta hindrunin í dag

„Helsta hindrun Hilmars í dag er ekki það að hann sé ekki nógu góður til að keppa á evrópubikarmótum, heimsbikarmótum, heimsmeistaramótum og jafnvel Ólympíuleikunum, heldur er það aldurinn," segir Loftur Gísli Jóhannsson, þjálfari Hilmars, en hann hefur ekki náð aldri til að taka þátt þessum mótum.

Loftur hefur þjálfað Hilmar frá upphafi og fylgdi hann honum í æfingarferðina til Austurríkis.

Úr einkasafni.
Ferðin var skipulögð af Íþróttasambandi fatlaðra í Danmörku. Í ferðinni var fatlað fólk sem var að læra að skíða, en einnig fólk sem var að æfa sig fyrir keppni og fylgdu þeir Hilmar þeim hópi. Ferðinni var heitið á svæði sem heitir Kaunertal í Austurríki og skíðuðu þau í 2.100 til 3.100 metra hæð.
Æfði hópurinn meðal annars tækni í frjálsri skíðun, stórsvig og svig. Í hópnum sem Hilmar æfði með var eingöngu landsliðsfólk frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Austurríki. Meðal þeirra voru einstaklingar sem skíða á einum fæti eins og Hilmar, fólk sem skíðar í stól og þá einn sem hefur aðeins eina hendi.

Gaf landsliðsmönnunum ekkert eftir

„Hilmar stóð sig gífurlega vel í ferðinni og voru allir þjálfararnir á svæðinu mjög ánægðir með hann," segir Loftur. Gaf hann hinum landsliðsmönnunum, sem allir voru eldri en hann, ekkert eftir og töldu þjálfararnir hann gríðarlega góðan skíðamann miðað við aldur.

Hópurinn í fjallinu. Úr einkasafni.
Að sögn Lofts er Hilmar eini fatlaði skíðamaðurinn sem stundar æfingar með keppni í huga hér á landi.

Að sögn Lofts eru æfingar fatlaðra skíðamanna eins uppbyggðar og annarra skíðamanna. „Þeir skíða í sömu brekkum og gilda sömu reglur um hvernig brautirnar eru gerðar. Þeir gera kannski ekki alveg sömu æfingar á æfingum, en formið og uppbygging æfinganna er eins," segir hann og bætir við að markmið æfinganna sé það sama.
Hann segir skíðastíl fatlaðra og ófatlaðra mjög svipaðan en hann byggist á því að ná sem mestum hraða úr úr skíðinu sem maður situr eða stendur á. „Skíðin eru þannig að grunnurinn er sá sami," segir Loftur.

Grant Volterenforte2019 Macron Logo NEG 1
Skrá sig á póstlista Víkings.

 header object clear2 minna